500 til 600 Hjallastefnan ehf Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna Not rated yet Stofnandi Hjallastefnunnar og frumkvöðullinn, Margrét Pála Ólafsdóttir, hefur margoft staðið frammi fyrir þessari spurningu, sem og við öll sem hjá Hjallastefnunni störfum. Okkur eru ýmsar leiðir færar þegar að því kemur að svara þessari spurningu og svarið getur sannarlega verið fjölbreytilegt, en Margrét Pála svaraði skýrt og skorinort á sínum tíma: „Hjallastefnan er kærleiksmiðuð og skapandi lýðræðisstefna“. Kærleikur, sköpun og lýðræði Kærleikur er eitt af lykilhugtökum Hjallastefnunnar, að mæta hverju barni, fjölskyldumeðlimi og starfsfólki öllu með kærleika í öllum samskiptum. Vinsamlegt orðalag sem vel er til þess fallið að skapa kærleiksríkt umhverfi. Jákvæðar staðhæfingar iðkaðar og þjálfaðar. Sköpun er, eðli málsins samkvæmt, ófrávíkjanlegur hluti af skólastarfi. Umhverfi sem hvetur börn til sjálfstæðrar og gagnrýninnar hugsunar skapar frjóan jarðveg og gott veganesti til framtíðar. Hið fornkveðna orðatiltæki „æfingin skapar meistarann“ hefur alla tíð verið í hávegum höfð innan Hjallastefnuskóla. Því er nefnilega þannig farið að allt það sem vel er gert krefst æfingar og þjálfunar. Ef börnum er skapað öruggt umhverfi til skoðanaskipta, markmiðasetninga og samskipta þá verða til hreinir galdrar. Lýðræði er svo grunnþáttur menntunar. Virkt lýðræði verður aldrei að veruleika nema við öll sem erum þátttakendur í samfélaginu fáum að beita okkur og getum notað rödd okkar. Börn og ungmenni eiga rétt á því að hafa mótandi áhrif á samfélagið, þeirra framtíðarsýn skiptir máli og þau þurfa þjálfun í þáttum er þetta varða. Dag hvern þjálfum við okkur í „leikreglum samfélagsins“, við förum á valfundi og fáum þannig að hafa bein áhrif á okkar daglega vinnuumhverfi. Börnin fá að velja sér viðfangsefni sem ríma við þeirra ástríðu, hvort sem það er útivera, listir, lestur eða hvaðeina. Börn eru þjálfuð í að fara eftir reglum, að taka tillit til annarra einstaklinga í samfélaginu. Á valfundum er „fullorðinsvaldið“ sett til hliðar og flyst þá valdið til barnanna. Eins eru lýðræðisfundir haldnir reglulega og þannig geta börn og barnahópar óskað eftir því að fá að hafa áhrif á matseðla, á dagskipulag, föstudagsfjör og svo framvegis.