Háskóli Íslands
Betri háskóli – betra samfélag
Embætti rektors Háskóla Íslands er laust til umsóknar.
Í samræmi við 1. mgr. 8. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, auglýsir háskólaráð Háskóla Íslands hér með laust til umsóknar embætti rektors Háskóla Íslands.
Rektor er forseti háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans og talsmaður gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Hann ber ábyrgð á framkvæmd stefnu háskólans og tengslum háskólans við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra fræðasviða og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
Embættisgengir eru þeir einir sem hafa prófessorshæfi, leiðtogahæfileika og skýra og metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir háskólann, ríka samskiptahæfni og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Háskólaráð ákvarðar hvaða umsækjendur uppfylla skilyrði um embættisgengi, sbr. 2. tölul. 6. gr. reglna háskólans. Einungis þeir sem þegar hafa fengið formlegan hæfnisdóm sem prófessor við viðurkenndan háskóla áður en umsóknarfrestur rennur út teljast uppfylla skilyrði um prófessorshæfi.
Um launakjör fer samkvæmt 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skipar háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, sbr. 8. gr. laga um opinbera háskóla. Tilnefning háskólaráðs fer fram að undangengnum kosningum í háskólanum, sbr. 6. gr. reglna háskólans. Skipunartímabil rektors er fimm ár, frá 1. júlí 2025
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 31.01.2025
Ragnhildur Ísaksdóttir, ragnhildurisaks@hi.is