Háskóli Íslands
Betri háskóli – betra samfélag
Laust er til umsóknar starf doktorsnema í við Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Rannsóknin sem doktorsneminn innir af hendi verður sérstakur verkþáttur innan þverfaglegs rannsóknarverkefnis sem ber heitið Birkiskógar Íslands í fortíð og framtíð og er fjármagnað af Rannsóknasjóði Rannís til þriggja ára.
Frá því landnám norræns fólks átti sér stað hér á Íslandi um 870 e. Kr. hefur landið tapað nær öllum þeim birkiskógum sem talið er að þá hafi verið til staðar. Í dag lifa aðeins dreifðar, einangraðar leifar gömlu birkiskóganna. Verkefnið mun tefla saman gögnum frá fornvistfræði, fornleifafræði og vistfræði til að greina þróun birkiskóganna í tímans rás (um 4000 ár) og í samhengi við ytri áhrifaþætti, nýtingu þeirra yfir s.l. 1150 ár, og núverandi ástand. Niðurstöðum rannsóknarinnar er ætlað að draga fram ástæður þess að á sumum svæðum viðhéldust birkiskógar, á sama tíma og stærstur hluti þessara gróðursamfélaga eyddist. Verkefninu er jafnframt ætlað að leggja fram gögn sem geta nýst við áætlanir um endurheimt þeirra gróðursamfélaga sem birkiskógar mynda. Nemandinn mun njóta stuðnings af innlendu og erlendu rannsóknasamstarfi.
Verkefnið felur í sér (ekki tæmandi):
Vettvangsvinnu til að afla nauðsynlegra gagna/sýna til að byggja upp fornvistfræðileg gagnasöfn.
Byggingu tímaramma fyrir jarðvegssnið og/eða setkjarna með gjóskulögum og geislakolsgreiningum.
Frjókornagreiningu í hárri tímaupplausn, gagnavinnslu og túlkun gagna.
Samþættingu gagna fengnum frá fornvistfræði og gögnum sem verða unnin í samvinnu við aðra rannsakendur og verkþætti (t.d. fornleifafræði, sagnfræði, vistfræði).
Birtingu og kynningu á niðurstöðum verkefnisins í ritrýndum, alþjóðlegum tímaritum, á ráðstefnum og málstofum hérlendis og erlendis.
Samantekt á niðurstöðum verkefnisins í doktorsritgerð undir lok doktorsnáms.
Verkefnið nýtur rannsóknaaðstöðu við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi er Egill Erlendsson, prófessor.
Meistaragráða í landfræði, öðrum greinum umhverfisvísinda, fornleifafræði eða öðrum tengdum greinum
Góð samskiptahæfni og geta til að vinna bæði sjálfstætt og í teymi
Góð enskukunnáttu í töluðu og rituðu máli
Góð íslenskukunnátta er kostur
Reynsla af fornvistfræðilegum aðferðum/nálgunum í rannsóknavinnu er kostur
Færni í að kynna niðurstöður verkefnisins í ritrýndum vísindagreinum og á ráðstefnum innanlands og erlendis
Ráðning er háð því að umsækjandi sæki formlega um doktorsnám við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands og að umsóknin sé samþykkt af deild, stundi umsækjandi ekki doktorsnám þar nú þegar.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og viðkomandi stéttarfélag hafa gert.
Starfið hefst eigi síðar en 2. júní 2025.
Umsóknir skulu innihalda:
Ferilskrá
Kynningabréf þar sem fram kemur hvað vekur áhuga umsækjanda á verkefninu og hvað hann hefur fram að færa við mótun og framkvæmd þess (hámark ein blaðsíða)
Afrit af prófskírteinum (grunnnám og meistaranám)
Tvö umsagnarbréf og upplýsingar um hvort og hvernig má hafa samband við umsagnaraðila
Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun hefur verið tekin. Umsóknir geta gilt í allt að sex mánuði frá lokum umsóknarfrests.
Við ráðningu í störf í Háskóla Íslands er tekið mið af jafnréttisáætlun skólans, sjá hér: http://www.hi.is/haskolinn/jafnrettisaaetlun#markmid2
Vakin er athygli á málstefnu Háskóla Íslands, sjá hér: https://www.hi.is/haskolinn/malstefna%5Fhaskola%5Fislands
Háskóli Íslands er gróskumikið þekkingarsamfélag og fjölbreyttur og lifandi vinnustaður. Akademískt frelsi, fagmennska og jafnrétti eru gildi háskólans og er mikið lagt upp úr sveigjanleika og þátttöku starfsfólks í uppbyggingu náms og rannsókna. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði starfa um 390 manns við rannsóknir og kennslu á sviði verkfræði og náttúruvísinda. Starfsumhverfið er alþjóðlegt, þar sem fjórðungur bæði starfsfólks og framhaldsnema við sviðið eru erlendir, og það hlutfall er sífellt að aukast. Á sviðinu eru um 2000 nemendur, þar af um fjórðungurinn framhaldsnemar. Verkfræði- og náttúruvísindasvið stærir sig af fjölbreytileika og umbótasinnuðu umhverfi þar sem þekkingaröflun og miðlun er í fyrirrúmi.
Starfshlutfall er 70-100%
Umsóknarfrestur er til og með 14.03.2025
Egill Erlendsson, egille@hi.is
Fá tilkynningu um svipuð störf
Lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun – Heilbrigðisvísindasvið – Háskóli Íslands Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf lektors við Námsbraut...
Sækja um þetta starfLektor í vistfræði sjávar eða ferskvatns Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf lektors á sviði vistfræði sjávar eða ferskvatns...
Sækja um þetta starfDoktorsnemi í tölfræði Hlusta Starf doktorsnema í tölfræði er laust til umsóknar við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Doktorsneminn mun vinna að...
Sækja um þetta starfLektor í þýsku Hlusta Laust er til umsóknar fullt starf lektors í þýsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Þýska...
Sækja um þetta starfDoktorsnemi á sviði tölfræðilegrar og tæknilegrar jarðskjálftafræði Hlusta Auglýst er laust til umsóknar starf doktorsnema á sviði tölfræðilegrar (statistical seismology)...
Sækja um þetta starfDoktorsnám í jarðhita með áherslu á þátt jarðhitavökva í kælingu kvikuinnskota Hlusta Auglýst er laust til umsóknar starf doktorsnema á...
Sækja um þetta starf