LEIÐARLJÓS LEIKSKÓLANS
Waldorfleikskólinn Sólstafir starfar eftir uppeldis- og kennslufræðum Rudolfs Steiners, sem Waldorf-fræðin eru byggð á.
Allt skólastarfiðeinkennist af sterkum hrynjanda sem fylgir árstíðarhringnum okkar. Segja má að árstíðarhringurinn sé okkar eiginlega skólanámskrá, þó svo að við störfum að sjálfsögðu eftir formlegri
námskrá.
Hátíðir spila stóran þátt í starfinu hjá okkur. Hver árstíð hverfist um ákveðna hátíð, verk, sögur og söngva. Hver vikudagur hefur ákveðin verk og hádegismat. Það er gott að starfa eftir þessum sterka hrynjanda,
endurtekningin veitir börnunum öryggi og þau vita alltaf hvernig dagurinn er uppbyggður. Grunnþættir Waldorf-uppeldisstefnunnar eru: Sterkur hrynjandi, frjálsleikur, virkjun ímyndunaraflsins, sköpun og gott fordæmi fullorðinna.
Unnið er með náttúrulegan opinn efnivið í því skyni að virkja sköpunarkraft barnanna í leik og starfi.
Í leikskólanum er komið fram við barnið af virðingu og lagður grunnur að góðri félagsfærni. Skapaðar eru aðstæður til þess að barnið fái að vaxa og það geti notið sín í leik og starfi í hlýju og kærleiksríku umhverfi. Við lítum svo á að foreldrar séu mikilvægur þáttur í góðu og farsælu leikskólastarfi og leggjum rækt við
það.
Steiner sagði m.a. að leikskólar ættu ekki að vera kennarastýrðir og því ætti ekki að hefja formlega kennslu í leikskóla heldur efla börnin í leik og að kenna þeim í gegnum hann. Steiner lagði áherslu á að kennarar
segðu sögur, færu í leiki og segðu börnunum gátur. Á þessu byggjum við m.a. starfið hjá okkur.
DEILDIR Á LEIKSKÓLANUM
Á leikskólanum eru fimm deildir með tæplega 80 börn.
Bjartaland með börn á aldrinum frá átján mánaða til rúmlega tveggja ára.
Mánaloft með börn á aldrinum tveggja til rúmlega þriggja ára.
Stjörnuloft með börn á aldrinum rúmlega þriggja til fjögra ára.
Fiðrildadeild með börn á aldrinum fjögra til fimm ára.
Regnboginn með börn á aldrinum fjögra til sex ára.