Veiðifélag Eystri Rangár rekur seiðaeldisstöð að Eyjarlandi á Laugarvatni. Þar fer fram umfangsmikil ræktun á laxseiðum fyrir Eysrti Rangá.
Eystri Rangá hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem ein albesta laxveiðiá landsins en meðalveiði síðustu fimm ára er 4300 laxar á ári en sumarið 2020 veiddust 9070 laxar í ánni. Átak hefur verið gert í því síðustu ár að taka stórlax úr ánni í klak. Hefur það skilað þeim árangri að í Eystri Rangá er æ hærra hlutfall aflans stórlax og hefur veiðin að sama skapi aukist fyrr á tímabilinu.
Laxveiði eins og hún gerist best!
Eystri Rangá er þekkt fyrir afar góða og mikla veiði. Bróðurpartur aflans er sterkur smálax á bilinu 5-7 pund en á hverju ári laxar í ánni um og yfir 20 pundin.
Veiðisvæði í ánni spannar 22 kílómetra frá ósi við Þverá upp að ólaxgengnum fossi á svæði 9. Áin býður upp á mjög fjölbreytta veiðistaði allt frá hæglíðandi breiðum út í stríðari strengi. Flestir veiðistaðir árinnar eru frábærir fluguveiðistaðir sem bjóða upp á fullkomið rennsli. Best fer á að nota tvíhendu þar sem áin er breið en á sumum stöðum er laxinn það nálægt landi að einhenda dugar vel.
Allir sem hafa kynnst Eystri Rangá vita að bestu staðir geyma oft á tíðum óhemju af laxi og ekki er óalgengt að lenda í tökuveislu á einum og sama staðnum. Þegar takan dettur niður er ekkert annað að gera en drífa sig á næsta stað því þeir eru margir góðir í ánni.