Hjallastefnan er kærleiksmiðuð jafnréttisstefna
Hjallastefnan er framsækið félag á sviði uppeldis og menntunar sem starfrækir sjálfstæða leik- og grunnskóla undir merkjum jafnréttis, lýðræðis og sköpunar. Árið 1999 var Hjallastefnan ehf. stofnuð í því skyni að halda formlega utan um sjálfstæðan rekstur um hugmyndafræðina á leik- og grunnskólastigi.
Eigendur
Hjallastefnan er í dag að stærstum hluta í eigu stofnanda og höfundar Hjallastefnunnar, Margrétar Pálu Ólafsdóttur ásamt 11 öðrum smærri hluthöfum. Hjallastefnan er rekin eins og um sjálfseignarstofnun sé að ræða með það að markmiði að vera val fyrir foreldra í landinu. Aldrei hefur verið greiddur út hagnaður af daglegum rekstri og fjármunir eru nýttir í áframhaldandi uppbyggingu á starfi.
Bylting í stjórnun
Hjallastefnan hlaut árið 2019 Byltingarverðlaunin frá Viðskiptaráði og Manino en fyrirtækið þótti hafa skarað fram úr öðrum við innleiðingu og notkun nýrra og framsækinna stjórnunaraðferða. Í öllu okkar starfi er það að leiðarljósi að ná fram því besta frá starfsfólkinu.
Hjallastefnunni er stýrt af stjórn og í hennar umboði starfa tveir framkvæmdastjórar, annar stýrir stjórnun og rekstri og hinn ber ábyrgð á faglegum rekstri og fræðslu.
Skólar Hjallastefnunnar starfa sjálfstætt undir stjórn síns skóla- eða leikskólastjóra sem hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á daglegum rekstri. Þannig hefur hver skóli sitt einstaka andrúmsloft og sína menningu en allir starfa þeir þó að sameiginlegu markmiði og eftir sömu námskrá sem liggur til grundvallar öllum þáttum fagstarfsins.
Skólastjórnendur starfa einnig í náinni samvinnu sín á milli og við rekstrarskrifstofuna, Miðstöð Hjallastefnunnar þar sem starfar hópur stjórnanda og sérhæfðs starfsfólks. Miðstöð er virk og valdeflandi stoð við faglega og rekstrarlega þætti í skólastarfinu.
Hjallastefnufjölskyldan
Alls starfrækir Hjallastefnan 15 leikskóla á landinu í 11 sveitarfélögum, sex á höfuðborgarsvæðinu, tvo í Reykjanesbæ, einn í Árborg auk fimm leikskóla á landsbyggðinni; Skagaströnd, Ísafirði, Akureyri, Bifröst í Borgarfirði, Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum. Einnig rekur Hjallastefnan þrjá grunnskóla í þremur sveitarfélögum, Barnaskólann í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði. Hjá Hjallastefnunni starfa tæplega 600 manns og eru nemendur um 500 talsins.