Listasafn Íslands er þjóðlistasafn og leggur megináherslu á 19. og 20. aldar list, íslenska og erlenda. Það á merkasta safn íslenskra verka á Íslandi og eftir alla helstu myndlistarmenn þjóðarinnar. Það hefur einnig að geyma vaxandi safn erlendra verka eftir heimskunna listamenn, svo sem Pablo Picasso, Edvard Munch, Karel Appel, Hans Hartung, Victor Vasarely, Richard Serra og Richard Tuttle.
Listasafn Íslands er eign íslenska ríkisins og er höfuðsafn á sviði myndlistar. Listasafn Íslands rekur söfn á þremur stöðum í Reykjavík: Á Fríkirkjuvegi 7, í Safnahúsinu við Hverfisgötu og í Húsi Ásgríms Jónssonar á Bergstaðastræti 74.