Menntaskólinn á Ísafirði er staðsettur í fögru umhverfi í höfuðstað Vestfjarða. Skólinn er af heppilegri stærð þannig að nemendur hverfa ekki í fjöldann. Lögð er áhersla á persónuleg samskipti við nemendur, heimilislegt andrúmsloft, góða kennslu, leiðsögn og námsráðgjöf. Skólinn er vel búinn tölvum og í öllum skólanum er þráðlaust tölvukerfi. Sífellt fleiri áfangar eru nú skipulagðir með hliðsjón af tölvustuddri kennslu með samskiptakerfi á netinu er nefnist Moodle. Húsakynni skólans eru björt og rúmgóð og öll á einni lóð, þar á meðal nýlegt og vel búið verknámshús fyrir málmiðngreinar og vélstjórnarbraut. Einnig er góð aðstaða fyrir rafiðngreinar og fullbúin aðstaða er fyrir nám í húsasmíði og grunndeild hár- og snyrtigreina. Bókasafnið er til fyrirmyndar með góðri lestrar- og tölvuaðstöðu. Stórt og glæsilegt íþróttahús er fast við skólann. Falleg útivistarsvæði eru á næstu grösum og stutt er í skíðalandið. Menntaskólinn á Ísafirði býður upp á fjölbreytt nám þar sem bæði er tekið mið af þörfum einstaklingsins og samfélagsins. Nú stunda á fimmta hundrað nemendur nám við skólann á bóknáms-, verknáms- og starfsnámsbrautum. Skólinn starfar eftir áfangakerfi. Jafnan er reynt að gæta þess að nám sem lokið er á einhverri braut skólans nýtist þótt skipt sé um námsbraut.