Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) sinnir heilbrigðisþjónustu á Austurlandi, á alls um 16.200 ferkílómetra svæði allt frá Bakkafirði til Álftafjarðar, frá hálendi til strandar. Íbúafjöldi á Austurlandi er um 11 þúsund manns.
HSA er ríkisrekin þjónustustofnun sem hóf starfsemi sína 1. janúar 1999 og veitir alhliða heilsugæslu-, sjúkra- og hjúkrunarþjónustu. Við tilurð hennar sameinuðust átta heilbrigðisstofnanir á Austurlandi í eina. Markmiðin með stofnun HSA voru m.a. að tryggja íbúum góða heilbrigðisþjónustu og styrkja þjónustusvæðið sem stofnunin nær til, t.d. með bættri mönnun, samvinnu og samnýtingu.
Meginhlutverk HSA er að veita íbúum Austurlands og öðrum er þar dvelja, aðgengilega og eftir megni samfellda og alhliða heilbrigðisþjónustu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar og heilsuverndar, sem og almenna sjúkrahúsþjónustu, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007. Hver starfsstöð og starfsmenn hennar gegna mikilvægu hlutverki sem hlekkur í samfelldri þjónustukeðju HSA, sem byggja skal á þekkingu, þverfaglegri samvinnu og þjónustulund og á þátt í að skapa ímynd HSA.
Hjá HSA starfa um 420 manns og starfsstöðvar eru 13 talsins. Umdæmissjúkrahús Austurlands er í Neskaupstað. Í stærri þéttbýliskjörnum eru heilsugæslustöðvar auk ýmissar stoðþjónustu og svonefnd heilsugæslusel á minni stöðunum.
Helstu viðfangsefni HSA eru;
– Lækningar og hjúkrun
– Hjúkrunarþjónusta við aldraða
– Heimahjúkrun
– Fæðingarþjónusta og ungbarnavernd
– Endurhæfing
– Skólaheilsugæsla
– Rannsóknir
– Kennsla
Gildi HSA eru: Virðing – öryggi – fagmennska.
Lögð er rík áhersla á þverfaglegt starf innan stofnunarinnar, undir einkunnarorðunum: Samvinna um velferð. Allt starf HSA miðar að því að eiga samvinnu um velferð.